152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja og veiðigjöld.

[16:03]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Við hljótum að fagna því þegar vel gengur hjá fyrirtækjum í samfélaginu en við hljótum líka að benda mjög einbeitt og hressilega á það þegar tölur úr uppgjörum gefa tilefni til. Sjávarútvegsfyrirtækið Brim hagnaðist um rúma 11 milljarða á síðasta ári. Fyrirtækið greiðir út arð upp á rúma 4 milljarða en greiðir 900 milljónir fyrir réttinn til að veiða fiskinn okkar allra. Síldarvinnslan hagnaðist líka um rúma 11 milljarða, greiðir 3,4 milljarða í arð en veiðigjöld fyrir að fá að veiða fiskinn okkar allra voru 500 milljónir. Það blasir við að það er ævintýraleg skekkja í þessum tölum. Hagnaðurinn er ánægjulegur en það hlutfall af hagnaði sem rennur til ríkisins í formi veiðigjalda er allt of lágt. Aðgöngumiðinn af auðlindinni kostar of lítið.

Þetta er því miður gömul saga og ný og það væri frumleg sýn á raunveruleikann að búast við því að stefna þessarar ríkisstjórnar breytti miklu, ekki síst vegna þess að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins spilar í úrvalsdeild þegar kemur að því að pakka í vörn fyrir útgerðina. Eða hvað? Kannski leynist innan ríkisstjórnarinnar vonarglæta ef orðum fylgja efndir. Hæstv. viðskiptaráðherra vakti máls á því fyrir örfáum vikum að nú væru breyttar aðstæður í sjávarútvegi og tímabært að auka gjaldtöku. Hæstv. ráðherra notaði orðin ofsagróði og ofurhagnaður í þessu samhengi, ofsagróði og ofurhagnaður. Ráðherra sagði jafnframt að þingflokkur Framsóknar væri allur þessarar skoðunar. Þetta þýðir kristalklárt að það er meiri hluti í þinginu fyrir því að hækka veiðigjöld, jafnvel þótt hinir ríkisstjórnarflokkarnir hafi ekki tekið undir þetta. Og hvert verður þá framhaldið? Ætlar ráðherra að standa við stóru orðin, fylgja þeim eftir eins og alvöru forystufólk gerir og sjá til þess að meirihlutavilji þingsins ráði óháð ríkisstjórnarviljanum og þjóðin fái hærra og réttlátara gjald fyrir auðlindina? Ætlar hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því?