152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja og veiðigjöld.

[16:06]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir fyrirspurnina og vil byrja á því að segja að hann kemur inn á mjög mikilvægt málefni í samfélagi okkar, þ.e. hvernig við skiptum þessum auðæfum og hvernig við höfum réttláta gjaldtöku. Sjávarútvegur þjóðarinnar gengur mjög vel. Við vitum að þar er mikill hagnaður og eitt af því sem hefur verið að gerast vegna tækniframfara er að færri koma að vinnslu og öðru slíku og hagnaðurinn og arðsemin hefur verið að aukast gríðarlega. Það er mín skoðun að það þurfi að fara betur yfir þessi mál. Við þurfum að skoða það þegar ákveðnar atvinnugreinar eru farnar að skila gríðarlegum hagnaði og ég tel að það sé vilji þeirra sjálfra að skila samfélagi sínu meiri arði. Ég tel að það sé eðlilegt og sanngjarnt gagnvart samfélaginu að gera það. Það á ekki bara við um þessa atvinnugrein, ég nefndi bankakerfið um daginn, það á líka við um bankakerfið. Mér finnst mjög ljóst hversu framfarasinnuð þessi ríkisstjórn er sem ég sit í og það kæmi mér ekkert á óvart að við myndum koma ykkur á óvart.