152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

hugsanleg aðild að ESB.

[16:16]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Frú forseti. Þær aðstæður sem nú eru í Evrópu eru bæði skelfilegar og ógnvænlegar. Við erum öll meðvituð um smæð okkar í því samhengi. Það sem mér finnst mikilvægt er að orðræðan sem fram fer, bæði innan þings og utan, sé með þeim hætti að talað sé af ábyrgð og ekki sé alið á ótta því að nægur er harmurinn fyrir. Varðandi öryggis- og varnarmál hefur ýmislegt komið fram, hver staðan er núna, hvaða sýn ólíkir aðilar hafa á framtíðina. Í því samhengi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra. Í ljósi stöðunnar í Úkraínu hefur umræðan um öryggis- og varnarmál á Íslandi farið hátt og mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra um mat hennar á gagnsemi þess fyrir öryggis- og varnarstöðu landsins að Ísland gangi í Evrópusambandið. Eins langar mig að velta því upp hver afstaða ráðherrans sé varðandi það að taka upp aðildarviðræður í miðju krísuástandi.