152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

um fundarstjórn.

[16:27]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Nú er orðinn óttalegur plagsiður hjá ráðherrum að mæta frekar með derring en svör í óundirbúnar fyrirspurnir. Það er kannski hægt að fyrirgefa hæstv. viðskiptaráðherra að hún sé dottin úr þjálfun, enda er þetta fyrsta fyrirspurnin sem beint er til hennar á kjörtímabilinu. (Gripið fram í.) En mig langar að vekja athygli á því að umhverfisráðherra var sama marki brenndur hér í dag þegar hann fór að hrópa: Þingmaðurinn hatar hagvöxt, sem ég hélt við hefðum vaxið upp úr fyrir svona 15 árum í umræðum um umhverfismál. En nei, það er risaeðla í umhverfisráðuneytinu sem heldur að það fólk sem vill hverfa frá því að einblína eingöngu á hagvöxt, óháð því hvernig hann er til kominn og hanna þannig grunn að sjálfbæru samfélagi, sé einhvern veginn úti að aka. Og vel að merkja þessi klausa er upp úr loftslagsstefnu sem síðasti umhverfisráðherra samþykkti. Þetta er opinber stefna ríkisstjórnarinnar sem ráðherrann situr í, en hann er ekki sleipari en svo í málaflokknum sem hann fer fyrir að hann kann þetta ekki einu sinni. Hann kann bara gamla jarmið síðan hann var stóriðjusinni í stjórnarandstöðu og notar það sem stóriðjusinni í ráðuneyti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Nákvæmlega.)