152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

um fundarstjórn.

[16:47]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Mig minnir að það hafi verið 2014 sem þeir stóðu þarna úti í horni, Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Það var kona í pontu. „Róa sig“, sögðu félagarnir. Ég hélt að þetta væri hætt. En hvað mætir hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson hér? „Ég hef bara aldrei séð hana jafn æsta þessa.“ Og þegar að þingheimur mótmælir þessari forkastanlegu framkomu með frammíköllum eins og vera ber þá bara tvíeflist ráðherrann í dónaskapnum, segir: „Sjáðu hvernig liðið lætur.“ Hvernig lét forseti þá? Við erum hér í fundarstjórn forseta, ekki bara í einhverri málfundaræfingu að tala um það sem gerðist heldur að kalla eftir viðbrögðum frá fundarstjóra þessa fundar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Ráðherra fór yfir strikið og það er hlutverk forseta að hlutast um. Hvað ætlar forseti að gera? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)