152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

um fundarstjórn.

[16:58]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á því hvað ég kem seint inn í þessa umræðu, er einstæð móðir og lenti í vandræðum með starfsdag í dag. En ég er hingað komin. Ég kom hérna inn þegar hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir var að tala um að það væri kominn tími til að hætta þessari vitleysu. Ég ætla hreinlega að taka undir með hv. þingmanni en ég vil benda hv. meiri hluta og hæstv. ríkisstjórn á að þau vita mætavel hvað þarf að gera til þess að við hættum þessari vitleysu, sem í okkar huga er ekkert annað en umræður. Það eina sem við höfum til að hafa áhrif á þessu þingi er að láta í okkur heyra. Það er að leggja á borðið þau rök, þær áhyggjur sem við höfum. Það er alveg á tæru hvað þarf til að hér færist sátt í þingsalinn og það er að haft sé samráð við minni hlutann, að borin sé virðing fyrir Alþingi og að ekki sé farið með öll mál eins og það komi meiri hlutanum ekki við (Forseti hringir.) hvað minni hlutanum finnst og eins og minni hlutinn sé ekki hluti af þessu þingi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)