152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

geðheilbrigðismál.

[17:00]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að eiga orðastað við mig í dag um mikilvægan málaflokk sem hæstv. ráðherra ber ábyrgð á, geðheilbrigðismálin. Þegar ég óskaði eftir umræðunni var í huga mér hvernig stjórnvöld hafa brugðist við varnaðarorðum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um afleiðingar heimsfaraldurs vegna Covid-19 á geðheilbrigði jarðarbúa. Engum dylst það grettistak sem lyft var varðandi upplýsingagjöf og meðvitund heilbrigðisyfirvalda vegna þeirrar heilsuvár sem veiran hafði, en því miður hefur minna farið fyrir viðbrögðum er varða áhrif veiru á geðheilbrigði landsmanna.

Það kann að vera að margt hafi verið gert þótt þess sjái engin merki. Því þótti mér rétt að spyrja nokkurra spurninga um mótvægisaðgerðir stjórnvalda vegna Covid-19 og eru spurningar mínar eftirfarandi:

Hverjar eru sérstakar mótvægisaðgerðir vegna geðheilbrigðis í kjölfar Covid-19, skilgreindar eftir eftirfarandi hópum: Börn, ungmenni, eldra fólk utan vinnumarkaðar, fólk af erlendum uppruna, fólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu?

Þá vil ég biðja hæstv. heilbrigðisráðherra að greina Alþingi frá hver meðalbiðtími er eftir geðheilbrigðisþjónustu hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðunum hins vegar, og þá hvort biðtíminn hafi breyst á tímum heimsfaraldurs.

Ég vil einnig biðja um svör við því hver meðalbiðtími er eftir innlögn og þjónustu á barna- og unglingageðdeild og hvort þessi biðtími hafi breyst á Covid-tímum, hver meðalbiðtími er eftir innlögn og þjónustu á geðsviði á Landspítala og geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri og hvort biðtíminn hafi breyst á þessum tímum.

Frú forseti. Ég held að það sé óhætt að halda því fram fullum fetum að geðheilbrigðisþjónusta sé olnbogabarn íslensks heilbrigðiskerfis. Það virðist sem hvorki þyki sjálfsagt að almenningur eigi greiða leið að slíkri þjónustu né að hún sé hluti af sjúkratryggingakerfi okkar. Þá er húsakostur tveggja sjúkrahúsa sem hýsa geðdeildir svo gjörsamlega óboðlegur að enginn skilur hvernig stjórnendum heilbrigðismála dettur í hug að fólk nái bata í svo hrörlegum húsakynnum. Stór orð, já, en í alvöru talað þá getur maður ekki annað en velt fyrir sér hvort fordómum gagnvart þessari tegund heilsubrests sé um að kenna þegar þessi sjúklingahópur á lítinn og jafnvel engan kost á útiveru, hreyfingu utan dyra eða dvöl í fallegu, umvefjandi umhverfi. Þessi tiltekni sjúklingahópur sem ætla má að verði helst fyrir áhrifum af gráum og hrjúfum veggjum og innilokun án möguleika á útiveru og hreyfingu.

Frú forseti. Það er heldur ekki úr vegi að velta því fyrir sér hvort það séu innbyggðir fordómar kerfisins sem koma í veg fyrir að fjölskyldur þeirra sem glíma við geðrænar áskoranir fái áfalla- og viðtalsmeðferð í kjölfar mikilla veikinda og mögulega fráfalls nákominna ættingja vegna sjúkdóma þeirra. Þegar foreldri missir barn fyrir sjálfs síns hendi mætir ekkert teymi til að umvefja fjölskyldu, foreldra, systkini, heldur þarf fjölskyldan sjálf að leita allra leiða til að finna einhverjar bjargir. Þegar foreldri missir barn vegna krabbameins eða annarra langvinnra veikinda mætir áfallateymi á staðinn frá fyrsta degi greiningar, enda öllum ljóst að veita þarf fjölskyldunni ríkulegan stuðning vegna sorgarinnar sem í þessu felst.

Hvers vegna er þessi munur á þjónustu? Hvernig stendur á því að sá sem er fótbrotinn getur gengið inn á sjúkrastofnun og fengið þjónustu við sínu meini en sá sem fæst við geðrænar áskoranir fær að bíða á biðlistum mánuðum og árum saman?

Frú forseti. Það er ekkert þríeyki að störfum. Það eru engir upplýsingafundir í beinni útsendingu vegna nærri 50 dauðsfalla á síðasta ári vegna sjálfsvíga. Það ríkir þögn utan þess sem talað er um á tyllidögum að hrinda af stað stórátaki sem hvergi sést.

Hæstv. heilbrigðisráðherra. Hvað veldur þessu?