152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

geðheilbrigðismál.

[17:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil svo sannarlega þakka fyrir þessa umræðu. Þetta er mjög merkilegt mál og það er auðvitað grafalvarlegt mál þetta furðulega áhugaleysi ríkisstjórnarinnar á geðheilbrigðismálum fólksins í landinu. Það er löngu tímabært að heilbrigðisyfirvöld sýni ábyrgð og komi með viðunandi úrræði og þjónustu, t.d. fyrir börn sem eru á biðlista svo mánuðum skiptir til að komast á annan biðlista svo mánuðum skiptir til að fá svo nauðsynlega þjónustu eftir bið á þriðja biðlistanum, jafnvel svo mánuðum skiptir. Vandinn fer vaxandi og biðlistar lengjast. Það hafa verið erfiðleikar í heilbrigðismálum barna og unglinga raunar alla tíð, því miður. Það verður að auka þjónustu við börn og unglinga með geðraskanir. Flokkur fólksins segir: Eitt barn á bið er einu barni of mikið. Þetta er ekki flókið: Eitt barn á bið er einu barni of mikið. Það verður strax að veita nógu mikið fé í þjónustu við börn með geðraskanir. Það vantar fagfólk og það hefur lítið breyst í tugi ára. Biðin á biðlista getur svo sannarlega verið lífshættuleg og þá sérstaklega fyrir börn sem verða að bíða, eins og ég sagði, mánuðum eða jafnvel árum saman eftir meðferð. Kostnaður í heilbrigðiskerfinu; einn sálfræðitími kostar 18.500 kr. Fyrir þá verst settu eru það 8%, nærri 10% af mánaðarlaunum þeirra. Hvernig í ósköpunum á verst setta fólkið að hafa efni á þessu? Eru þeirra börn eitthvað verri? Og hitt er aðstaða geðdeildar. Það er nýr spítali í byggingu. Er þessi geðsjúkdómur kannski ekki nógu fínn til að fara þangað inn? Eða er miklu betra að setja utanríkisráðuneytið í rándýra byggingu hérna við höfnina heldur en að gera almennilega fyrir geðsjúkdóma?