152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

geðheilbrigðismál.

[17:18]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Geðheilbrigðismál bera hér oft á góma. Þegar ég tók sæti á Alþingi í maí 2006 fjallaði ég einmitt um þennan málaflokk, þá sem nú með áherslu á geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga. Grunnurinn að góðri geðheilsu er lagður í æsku og mikilvægt að hlúa vel að börnum og fjölskyldum þeirra. Forvarnir hafa aukist og geðheilbrigði fengið verðugri sess bæði innan heilbrigðis- og skólakerfisins, enda tilefnið ærið. Rannsóknir benda til að um 20% barna og unglinga glími við vanlíðan eða geðraskanir eins og kvíða eða þunglyndi og má ætla að hlutfallið sé enn hærra því að rannsóknir sýna sömuleiðis að börn segja ekki endilega frá því ef þeim líður illa. 7–10% barna eiga við geðheilsuvanda að stríða á hverjum tíma og þurfa á geðheilbrigðisþjónustu að halda. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni greinist um helmingur þeirra sem greinast yfir höfuð með geðraskanir fyrir 14 ára aldur og á heimsvísu er það þannig að stór hluti þeirra fær ekki viðeigandi meðferð. Vitundarvakning undanfarinna ára og efling grunn- og sérfræðiþjónustu við börn og unglinga með geðrænan vanda hefur sýnt okkur að betur má ef duga skal. Göngudeildar-, legudeildar- og vettvangsþjónusta hefur sannarlega aukist, ekki síst hvað viðkemur samvinnu, fræðslu og ráðgjöf. Framhald þarf að vera á þessari þróun því að hún heyrir til mikilvægra framfara í meðferðar- og forvarnavinnu á sviði barna og unglinga.

En með fleiri tilvísunum náum við ekki endilega utan um biðlistana eins og best við vildum og skortur er á meðferðarúrræðum öðrum en lyfjameðferðum, ekki síst í hinum dreifðu byggðum. Framboð og aðgengi að úrræðum og þjónustu fyrir börn og unglinga sem glíma við geðheilsuvanda sem og fyrir fjölskyldur þeirra er afar misjafnt eftir landsvæðum. Flest úrræði eru í boði á höfuðborgarsvæðinu þar sem mannfjöldinn er mestur. Í síðustu viku fjallaði ég um fjarheilbrigðislausnir og hvernig mætti nýta þær til að veita m.a. frekari geðheilbrigðisþjónustu um land allt í takt við þá auknu þjónustu sem komið var á á síðasta kjörtímabili í málaflokknum. Það er skýrt í mínum huga að við í okkar dreifbýla landi þurfum að hugsa út fyrir boxið (Forseti hringir.) og nýta fjölbreyttar lausnir til að veita góða geðheilbrigðisþjónustu úti um allt land.