152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

geðheilbrigðismál.

[17:27]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Frú forseti. Umræða um geðheilbrigðismál er alltaf nauðsynleg, ekki síst núna þegar við erum að koma úr óvenjulegu tímabili sem reynt hefur á þjóðina á margan hátt. Líkt og ráðherra kom inn á hér á undan hafa fjölmargar góðar aðgerðir verið settar af stað til þess að efla geðheilbrigði landsmanna. Brugðist var við aðkallandi vanda í upphafi faraldursins og aukið fjármagn sett til málaflokksins. En í umræðunni um geðheilbrigði langar mig þó að ræða mikilvægi þess að horfa í auknum mæli á heildarmyndina í stað þess að horfa á hvert úrræði fyrir sig. Huga þarf að öllum þáttum heilbrigðis, ekki eingöngu geðheilbrigðis. Heilbrigð sál í hraustum líkama, það sem einhverjum finnst kannski orðaprjál en það verður ekki litið fram hjá því að með því að hlúa að lýðheilsu hlúum við jafnframt að geðheilbrigði þjóðarinnar. Þá tel ég að heilsugæslan eigi að hafa enn stærra hlutverk en hún hefur í dag. Þörf er á að stórefla hana enn frekar sem fyrsta stigs þjónustu, þá sérstaklega á landsbyggðinni. Vissulega hafa verið stigin nauðsynleg skref á síðustu árum í að fjölga sálfræðingum á heilsugæslum og nú eru geðheilbrigðisteymi starfandi í öllum heilbrigðisumdæmum. Staðan er þó víða þannig á landsbyggðinni að skortur er á sérfræðingum. Nauðsynlegt er að tryggja betra aðgengi að sérfræðingum um allt land og veita eftir fremsta mætti þjónustu á heimasvæði. Hér þarf að bæta í. Þá má segja að kerfið eins og það hefur verið sett upp skipti þjónustunni upp í síló og einstaklingar og foreldrar hafa stundum verið óvissir um hvert þeir eigi að leita og hvenær. Notandi þjónustunnar á að upplifa að hún sé til staðar og að hún leiðbeini honum í þær áttir sem þörf er á að fara. Ég treysti heilsugæslustöðvunum víða um land vel til að sjá um þetta hlutverk og styð þær heils hugar áfram í þeirri vinnu.