152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

geðheilbrigðismál.

[17:37]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessari góðu umræðu og þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir að vekja máls á stöðu geðheilbrigðismála hér í dag. Eins og fram hefur komið eru biðlistar víða langir og er það óboðleg staða þegar kemur að veikum einstaklingum og jafnvel börnum. Það er þó allt of algengt að talað sé um fólk með geðrænan vanda sem einsleitan hóp og því er mikilvægt að hér sé myndin brotin upp og horft til mismunandi hópa. Ekki eru sjúklingarnir bara ólíkir hvað varðar aldur, kyn, búsetu, stétt og stöðu heldur geta veikindi verið ýmist langvarandi eða stutt tilfallandi tímabil, t.d. í kjölfar áfalla. Viðkvæmir hópar, hinsegin fólk á flótta og fólk með fatlanir o.s.frv., eru oft í viðkvæmari stöðu og eiga erfiðara með að nálgast þá hjálp sem þó stendur til boða. Því er svo mikilvægt að úrræðin séu mörg og fjölbreytt, að fólki sé ekki mismunað á grundvelli búsetu eða annarra þátta. Ég tek undir með hv. þm. Ingibjörgu Isaksen, við þurfum að bregðast fyrr við. Við verðum að laga menningarleg samfélagsmein og styðja við geðheilsu allt frá upphafi í stað þess að þurfa að mæta vandanum þegar staðan er orðin grafalvarleg. Ég hef trú á hæstv. heilbrigðisráðherra og styð hann til góðra verka og ég hvet hann til að horfa af sérstakri alúð til jaðarsettra hópa og ekki síst til þeirra sem búa á landsbyggðinni.