152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

grænþvottur.

449. mál
[18:06]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessu góða máli, styð þessa skýrslubeiðni heils hugar. Ég held að það sé ekki síður mikilvægt að skoða vel og vinna gegn því sem má kalla pólitískan grænþvott. Hvað er það t.d. annað en pólitískur grænþvottur þegar leiðtogi ríkisstjórnar segist standa fyrir grænni byltingu en ver minna en 1% af vergri landsframleiðslu til loftslagsaðgerða, þegar 23 bílaleigufyrirtæki fá 2 milljarða styrk til að kaupa bensín- og dísilbíla og það er kallað græn aðgerð eða þegar við tölum um Ísland sem grænasta land í heimi en erum um leið með eitthvert stærsta neysludrifna kolefnisfótspor í heimi? Þetta er allt saman svona pólitískur grænþvottur og við viljum varla að Stjórnarráðið sé ein risastór, hvað eigum við að segja, grænþvottastöð? Að því sögðu vil ég kalla eftir því að reglugerð Evrópusambandsins, sem kveður á um samræmdan ramma til að stuðla að sjálfbærum fjárfestingum, verði lögfest sem allra fyrst en hún felur einmitt í sér ákveðnar varnir gegn grænþvotti, flokkunarkerfi með skilgreiningum á því hvað teljist sjálfbær atvinnustarfsemi. (Forseti hringir.) Að því sögðu styð ég þessa skýrslubeiðni og hvet til þess að við spornum ekki bara gegn grænþvotti einkafyrirtækja heldur göngum líka sjálf fram með góðu fordæmi.