152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

réttindi sjúklinga.

150. mál
[19:08]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mig langar að taka undir með hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, ég er orðinn hundleiður á því að vera alltaf að koma hingað upp og tala um veitingu ríkisborgararéttar. En það bliknar í samanburði við tilfinningarnar sem ég ímynda mér að bærist í brjóstum þeirra rúmlega 100 einstaklinga sem er búið að teyma á asnaeyrunum í ársfjórðung. Þau skiluðu inn umsókn í október og reiknuðu með því að fá svar frá Alþingi fyrir jól. Nú er allt í einu kominn mars. Talandi um mannréttindi, sem við viljum víst helst ekki brjóta, af hverju er hægt að koma illa fram við þetta fólk? Af hverju er þetta hópur sem má akkúrat svína á Alþingi til að fótumtroða réttindi hjá?