152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

réttindi sjúklinga.

150. mál
[19:28]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég bara held að það geti ekki og það á ekki að vera neinn annar tilgangur en að bæta réttindin. Tilefnin eru auðvitað næg, tilefnin eru auðvitað skýrsla umboðsmanns. Tilefnin eru líka að við búum við í rauninni húsnæði og fjársvelt kerfi sem hefur kannski ekki getað komið fram af þeirri mannúð sem nauðsynleg er við þessar aðstæður, þannig að ég held að það sé bara ágætt að hæstv. ráðherra hafi þetta á efnisskrá sinni í vetur.

Ég minni hins vegar á að málið kom inn á síðasta þingi og var stoppað af því að það þótti ekki nógu gott. Það kemur fram hjá hæstv. ráðherra að það komi nánast óbreytt inn núna. Hvað gefur hæstv. ráðherra tilefni til að ætla að það sé eitthvað betra núna en þegar það komst ekki í gegn síðast? Ég veit það ekki. Það er ekki útilokað að það sé bara annað fólk í velferðarnefnd sem hafi aðrar skoðanir. Ég held að það sé ekki það samt. Ég held bara að umsagnir, vandleg skoðun og annað, gestakomur, hafi leitt það í ljós að við værum ekki á réttri leið með málið og það þyrfti að gera úrbætur á því. Sérstaklega í ljósi þess finnst mér mjög sérkennilegt að ráðherra hafi notað líkinguna um tímavélina. Hann hefði einmitt af því að málið komst ekki í gegn síðast, eftir að annar ráðherra hafði lagt það fram, átt að nota tækifærið núna og leita eftir víðtækari umsögnum og aðstoð við frumvarpið. Mér finnst þetta sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að þeir sem ekki voru kallaðir að borðinu eru sjúklingarnir og talsmenn þeirra.