152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

réttindi sjúklinga.

150. mál
[19:32]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er áhugavert hvernig ríkisstjórnin er farin að nota hugtök sem maður hélt að maður skildi á einhvern nýjan hátt. Eitt af þeim hugtökum er þingleg meðferð. Það að láta reyna á þinglega meðferð mála þýðir hjá okkur sem erum vön þinginu bara að senda mál sem stjórnin er einhuga um til þingsins til umsagnar og svo með einhverjum smá „justeringum“ er þetta orðið að lögum. En hjá ríkisstjórninni er þetta orðið skrúðyrði yfir það að vera með einhver mál algerlega í skralli hjá ríkisstjórninni, hafa ekki orku í að vinna það sín á milli og henda því óköruðu til þingsins í þeirri von að við getum einhvern veginn stagbætt það. Ég man ekki einu sinni hvað þau voru mörg málin sem svona var talað um á síðasta kjörtímabili. Ég nefni bara eitraða kokteilinn sem var hálendisþjóðgarður, rammaáætlun og Þjóðgarðastofnun. Það átti að redda þeim í gegnum þinglega meðferð og þau dóu öll, steindrápust á síðasta kjörtímabili af því að ríkisstjórnin og ráðherrar gátu ekki klárað upphafsverkefnið sem er að skila til okkar almennilegum málum sem þau alla vega sjálf eru sammála um. Þannig að ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður myndi telja að þarna skíni mögulega í það að það sé ekki einhugur í stjórnarflokkunum og frekar en að taka einhverja alvöruafstöðu í þessu máli með mannréttindum og gegn þvingunum t.d. þá bara treysti þau á að þingið taki ómakið af þeim og annaðhvort geri þetta mál almennilegt eða þau geti notað þingið, frekar en eigið verkleysi, sem afsökun fyrir því að það hafi ekki klárast.