152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

réttindi sjúklinga.

150. mál
[19:34]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég eiginlega treysti mér ekki til þess að lesa í það hvort það er einhver óeining ríkisstjórnarflokkanna á bak við. Ég átta mig ekki á þessum ríkisstjórnarlíkama og hann minnir mig stundum á vísindaskáldsögur og einhver fyrirbæri sem urðu til í gömlum bókmenntum þar sem menn voru að raða saman líkamspörtum úr ólíkum kvikindum og úr kom eitthvað sem enginn áttaði sig á. Mér finnst þau ekki vera mjög samstiga. En mér fannst áhugavert þetta sem hv. þingmaður sagði um þinglega meðferð. Það er t.d. þingleg meðferð þegar þingmenn leggja fram þingsályktunartillögur sem eru samþykktar eftir vandaða umfjöllun, jafnvel af öllum þingmönnum. Það er hins vegar vanvirða við þinglega meðferð þegar ríkisstjórnin hirðir ekkert um að fylgja þeim eftir. Af því að hæstv. heilbrigðisráðherra er hér er nærtækt að nefna mál um ókeypis sálfræðiþjónustu sem Viðreisn lagði fram og fékk samþykkt á síðasta kjörtímabili, ef ég man rétt. En nei, ég veit ekki hvað það er sem gerir það að verkum að þetta mál er í þessum búningi. Hæstv. ráðherra tekur þetta væntanlega í arf og eina sem ég hef út á það að setja er með hvaða hætti hann tekur við málinu og kemur með það hingað inn. Hann hefði átt að gefa sér betri tíma. Ég held að það sé augljóst að það hefði verið betra fyrir málið, það hefði skapað trúverðugleika. Það er a.m.k. ekki gott í upphafi meðferðar málsins að sjúklingum og talsmönnum þeirra finnist þeir hafa verið afskiptir í umræðum um það. Ég held að þetta liggi fyrst og fremst í því. Ég ætla ekki að gera hverjum og einum ráðherra upp neina skoðun í þessu máli.