152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

réttindi sjúklinga.

150. mál
[19:36]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þarna hitti hv. þingmaður á dálítið góða nótu varðandi þinglega meðferð á þingsályktunartillögum þingmanna sem eru samþykktar á Alþingi vegna þess að mig langaði að spyrja út í eina sem var samþykkt hérna 2019 um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Af því að hér hefur verið rætt dálítið um tímavélar þá átti frumvarp þess efnis samkvæmt tillögunni að vera orðið að lögum 13. desember 2020, sem er tveimur dögum áður en þetta frumvarp var upphaflega sett í samráðsgáttina. Samningurinn kveður á um ríka skyldu aðildarríkja til að hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess. Það þarf enga tímavél, það þarf bara að uppfylla t.d. þennan samning og hafa samráð við fólkið sem hefur mest um þessi mál að segja. Hér er talað í greinargerðinni um að mikið samráð hafi verið við fólkið sem beitir þessum lögum en ekkert við fólkið sem þessum lögum á að vera beitt á, fólkið sem samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna er að hluta til fólkið (Forseti hringir.) sem ríkið er skuldbundið til að hafa samráð við. Það þarf enga tímavél. Það þarf bara að fylgja samningnum.