152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

réttindi sjúklinga.

150. mál
[19:51]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst langar mig að koma inn á það sem hv. þingmaður nefndi undir lok ræðu sinnar varðandi samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks vegna þess að tímalínan er svo skrýtin á þessu öllu saman. OPCAT-skýrsla umboðsmanns birtist í október 2019, þremur mánuðum áður er Alþingi búið að samþykkja þingsályktun um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ráðuneytið hafði því hvort tveggja í höndunum, skilaboð frá umboðsmanni Alþingis um að eitthvað þyrfti að gera og skýran vilja Alþingis um að við samningu á frumvarpi af þessu tagi yrði að hafa samráð við hópinn sem um ræðir. Ég fæ það ekki alveg til að ganga upp að það hafi ekki verið gert. Og að það hafi ekki verið gert í tvígang er alveg fráleitt, þegar seinni útgáfa frumvarpsins sem við höfum í höndunum núna var lögð fram, þegar lögfesting samningsins átti samkvæmt vilja Alþingis að vera lokið. Nú höfum við dálítið talað um síðustu daga virðingu framkvæmdarvaldsins fyrir ákvörðunum Alþingis og þeirri umræðu sem á sér stað hér í sal. Hvað segir þetta um stöðu þings gagnvart ráðherrum?