152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

réttindi sjúklinga.

150. mál
[19:58]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er sérstaklega fjallað um málskot þannig að það er í sjálfu sér jákvætt og í raun algjört grundvallaratriði í öllu samhengi við þvingunarráðstafanir að því fylgi réttur til að kæra og réttur til að fá yfirferð yfir málið og að það sé ekki endanleg ákvörðun í fyrsta sinni. Ég tók líka eftir því í greinargerðinni að þar sem verið er að fjalla um umsagnir er verið að fjalla um mikilvægi þess að þessi lagasetning haldist í hendur við önnur úrræði sem eru fyrir hendi í lögræðislögum og í hegningarlögum. Þetta kemur aftur niður á sama stað um það að vegna þess að málin eru svo viðkvæm og vegna þess að þau eru svo erfið, svona ráðstafanir geta verið erfiðar innan fjölskyldna, er svo mikilvægt að löggjöfin fái að fæðast í samtali og samráði.

Varðandi tímafrestina sem hv. þingmaður nefndi þá verð ég að viðurkenna að ég hafði ekki skoðað þá og hvað væri raunhæft í því. Vika mundi a.m.k. þykja langur tími í samhengi við þær kröfur sem við gerum í hegningarlögunum. Þarna finnst mér þetta aftur koma inn á að það þarf að skoða þetta í samhengi af því að þar erum við líka að tala um, auðvitað af allt öðrum ástæðum, ákvarðanir sem alltaf eru teknar af hálfu yfirvaldsins í óþökk þess sem fyrir þeim verður.