152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

um fundarstjórn.

[13:33]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Í gær ræddum við frumvarp um réttindi sjúklinga sem hafði verið samið og lagt tvisvar fyrir þingið án þess að rætt hefði verið við sjúklinga. Það var bara rætt við Landspítala og landlækni, fólkið sem átti að beita nauðunginni á sjúklingana en ekki fólkið sem stendur vörð um réttindi þess fólks sem verður fyrir nauðunginni. Þetta samráðsleysi, þetta brot á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, er eitthvað sem virtist ekki trufla ráðherra í gær. En já, það eru vonandi komnar vöflur á hann. En, herra forseti, við eigum heimtingu á að vita hvort ráðherrann ætli að berja höfðinu við steininn og reyna að halda áfram að mæla fyrir máli sem best á heima í ráðuneytinu í endurvinnslu, eða hvort hann ætli einfaldlega að draga það til baka og koma með það í breyttu formi eins og formaður Geðhjálpar kallaði eftir í gær, formaður samtakanna sem (Forseti hringir.) voru svikin um samráð sem fyrrverandi heilbrigðisráðherra lofaði í desember fyrir rúmu ári.