152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

um fundarstjórn.

[13:35]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Nú verð ég eiginlega að vera pínu ósammála þeim tveimur hv. þingmönnum sem komu hingað upp á undan mér og auðvitað sínu sárara að vera ósammála hv. þingkonu Helgu Völu Helgadóttur vegna þess að ég skynjaði þann tón í gær að hæstv. heilbrigðisráðherra hefði eiginlega áttað sig á því að það var frumhlaup hjá honum að fara fram með málið, hann hefði áttaði sig á því að honum bar ekkert endilega að gera það nákvæmlega eins og fyrrverandi hæstv. ráðherra heldur hefði hann átt að nýta tækifærið til að tala við þá sem málið varðar sárlegast, sem eru sjúklingarnir sjálfir og hagsmunaaðilar þeirra. Þannig að ég ætla að þessu sinni að leyfa mér að hrósa hæstv. ráðherra og hvetja hann til að koma ekki með málið fyrr en hann er tilbúinn með það.