152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

um fundarstjórn.

[13:37]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég efast ekki um að hægt verði að halda þingmönnum við efnið í allan dag og fram á kvöld ef þannig háttar til. En ég verð nú samt að lýsa undrun minni á því að þetta mál skuli hafa verið tekið á dagskrá og kannski enn meiri undrun eftir að hafa hlustað á formann Geðhjálpar í fréttunum í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi þar sem hann hélt því fram að það hafi ekki verið haft neitt samráð við Geðhjálp í málinu. Mér finnst það mjög sérstakt að það hafi ekki verið gert. Þetta varðar alvarleg inngrip í líf fólks að fara fram með þessum hætti, að svipta fólk sjálfræði, og þess vegna teldi ég og væntanlega margir fleiri, að það væri eðlilegt að haft væri samráð við sem flesta, ekki bara þá sem þurfa að vinna vinnuna eins auðveldlega eins og hægt er.