152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

um fundarstjórn.

[13:40]
Horfa

Ágústa Ágústsdóttir (M):

Herra forseti. Ég ætla að taka U-beygju í þessari umræðu en fjalla þó samt um heilbrigðismál og núverandi og möguleg stoðkerfisvandamál þingmanna hér inni. Eftir fyrsta dag minn á Alþingi var ég í vafa um hvort ég ætti að koma og ræða þetta í morgun en ég ákvað að láta bara slag standa. Hér erum við látin sitja og ég hef stundum furðað mig á því hvers vegna salurinn er hálftómur þegar maður horfir á þingfundi á Alþingi. En svo uppgötvaði ég að alla vega partur af vandamálinu gæti verið sá að hér eru sjálfsagt upprunalegir stólar frá því að Alþingi var byggt, sem eru bilaðir og ekki hægt að gera við. Og hér fögnum við fjölbreytileikanum, við erum öll af misjöfnum stærðum og gerðum. Ég mæli því eindregið með því að til þess að gera vinnuna okkar auðveldari og gera okkur kleift að sitja lengur í þingsal án þess að þurfa að bregða okkur frá vegna verkja og annars, að stólunum verði skipt út fyrir sómasamlega stóla. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)