152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

um fundarstjórn.

[13:41]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Það er alveg skýrt samkvæmt lögum um þingsköp að ráðherrar eiga að jafnaði að svara fyrirspurnum til skriflegs svars innan 15 virkra daga. Frá því ég settist á þing hef ég lagt fram tólf fyrirspurnir. Flestar þeirra voru lagðar fram fyrir mörgum vikum eða mörgum mánuðum. Ég hef fengið svör við þremur þeirra og flestar eru einmitt fyrirspurnir sem varða málefni líðandi stundar eða snerta ýmist beint eða óbeint mál sem eru til umfjöllunar hér á Alþingi. Það aftrar beinlínis störfum okkar, vil ég meina, að þessi frestur sé ekki virtur. Ég vil hvetja forseta Alþingis til að ýta á eftir því við ráðherra ríkisstjórnarinnar að fyrirspurnum sé svarað innan lögbundins frests eftir því sem unnt er.