152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

störf þingsins.

[14:17]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnina skipa þrír stjórnmálaflokkar, þrír gjörólíkir flokkar með ólíkar áherslur. Grunnstefna þessara stjórnarflokka er jafnframt mjög ólík. Í kosningabaráttunni voru þessir flokkar með ólík og ítarleg kosningaloforð. Við heyrðum loforð frá þessum flokkum um að lækka skatta, fjölga skattþrepum, hækkun veiðigjalds, byggingu 600 nýrra íbúða á ári, að brúa bil milli fæðingarorlofs og leikskóla, bæta kjör eldri borgara, tvöfalda frítekjumark atvinnutekna, endurskoða fæðingarstyrk og svo mætti lengi telja. Þetta eru allt loforð sem kjósendur voru mataðir á fyrir hálfu ári. Í stjórnarsáttmálanum er ekkert að finna um þessi ítarlegu kosningaloforð. Stjórnarsáttmálinn er 600 blaðsíðna plagg sem er loðið og óljóst í öllum málaflokkum. Stjórnarþingmenn hafa lítið gert í því að vinna með loforðin sem voru gefin fyrir stuttu. Því velti ég því fyrir mér hvernig kjósendur geta treyst því að loforð sem gefin eru í kosningabaráttu séu ekki svikin. Hvernig geta kjósendur treyst því að flokkarnir sem þeir kjósa og enda í ríkisstjórn framfylgi þeim kosningaloforðum sem þeir gáfu? Kjósendur eiga að gera kröfu um að flokkarnir sem þeir kjósa standi við gefin loforð. Ríkisstjórnin sigldi um lygnan sjó á síðasta kjörtímabili þar sem engin stórpólitísk loforð voru efnd og má að mestu kenna um veirunni skæðu sem nú er vonandi á undanhaldi. Hvar eru pólitísku loforðin? Og af hverju geta ríkisstjórnarflokkarnir ekki staðið við gefin loforð sem er svo stutt síðan að þeir lofuðu? Það er ljóst að þeir flokkar sem sitja við ráðherraborðin þetta kjörtímabil munu ekkert gera í því að efna loforð. (Forseti hringir.) Hvað segir þetta kjósendum annað en að þessir þrír flokkar lofa einu en segja annað þegar komið er að ríkisstjórnarborðinu?