152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

orkuskipti í þágu loftslagsmála og sjálfbærrar framtíðar.

[14:49]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Til þess að geta staðið við háleit markmið okkar stjórnvalda í loftslagsmálum verðum við virkilega að skoða fleiri orkukosti. Við þurfum ekki bara að auka framleiðslu á raforku heldur verðum við að bæta flutningsleiðir raforku því að flutningsleiðunum er virkilega ábótavant milli landsvæða, sérstaklega þegar við horfum til Vestfjarða og á norðausturhorn landsins. Árið 2017 var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga um aðgerðaáætlun um orkuskipti. Þar er vörðuð leið með því markmiði að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa. Með orkuskiptum verði enn fremur stuðlað að aukinni nýsköpun og sjálfbærri þróun. Í aðgerðaáætluninni er talað um hagræna hvata fyrir neytendur og fyrirtæki við val á vistvænni tækni og orkugjöfum. Verkefnið Blámi er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða og Vestfjarðastofu. Markmið Bláma er að ýta undir og styðja við orkuskipti í samgöngum og sjávartengdum iðnaði ásamt því að efla nýsköpun á sviði orkunýtingar. Ýmsar raunhæfar hugmyndir hafa litið dagsins ljós hjá þeim. Smábátaútgerð á Vestfjörðum er tilvalin til að ýta af stað tilraunaverkefni í orkuskiptum, það er yfirleitt stutt á miðin og úthaldið því styttra í hverjum róðri. Hægt væri að beita hagrænum hvötum í þeim efnum. Línuívilnun hefur dregist verulega saman á Vestfjörðum og hægt væri að hugsa sér orkuívilnun í þess stað sem rynni til þeirra sem nýttu vistvæna orku, fengju aflaívilnun sem byggði á svipuðum grunni og línuívilnun. Það væri hægt að beita fleiri hagrænum hvötum til að flýta fyrir orkuskiptum rétt eins og verið er að gera í orkuskiptum í samgöngum.

Virðulegi forseti. Til þess að hægt sé að fara í alvöru orkuskipti þá vantar rafmagn inn á svæðið á Vestfjörðum. Það verður að auka raforkuframleiðsluna. Raforka er forsenda þess að uppbygging atvinnu, samfélaga og orkuskipta verði á svæðinu. Án þess getur fjórðungurinn ekki tekið þátt í loftslagsmarkmiðum stjórnvalda.