152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

orkuskipti í þágu loftslagsmála og sjálfbærrar framtíðar.

[15:00]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að óska eftir þessari mikilvægu umræðu. Við höfum sett okkur orkustefnu til 2050 sem unnin var í þverpólitískri vinnu allra þingflokka á síðasta kjörtímabili. Allir átta þingflokkarnir á síðasta kjörtímabili tóku þátt og var stefnunni skilað til ráðherra árið 2021. Mínar áherslur í orkustefnuvinnunni voru meginflutningskerfi raforku, þ.e. byggðalínan, vindorkan og samkeppnishæfni landsins. Í rammaáætlun þrjú sem mælt hefur verið fyrir hér í þinginu og við erum að ræða er aðeins einn vindorkukostur í nýtingarflokki og einn í biðflokki, Blöndulundur í nýtingarflokki og Búrfellslundur í biðflokki. Það voru vonbrigði á síðasta kjörtímabili að við hér í þinginu náðum ekki meiri umræðu um málefni vindorkunnar. Við Íslendingar erum með stefnu um að ná kolefnishlutleysi í landinu ekki seinna en árið 2040. Það er mikilvægt að við höfum skýra pólitíska sýn, þingið hafi skýra sýn, stjórnvöld hafi skýra sýn og að við öll, íslenska þjóðin, höfum skýra sýn á það hvernig við náum markmiðum um kolefnishlutleysi árið 2040 og hvernig unnið verði að orkuskiptum hér á landi. Loftslagsmálin eru mikilvæg. Það ber að fagna stöðuskýrslu sem kynnt var í síðustu viku en skýrslan var unnin fyrir hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaug Þór Þórðarson. Vilhjálmur Egilsson, fyrrverandi þingmaður, leiddi starfshópinn og með honum störfuðu Ari Trausti Guðmundsson, fyrrverandi þingmaður, og Sigríður Mogensen. Þetta er góð vinna sem mun nýtast okkur vel í þinginu, gott yfirlit yfir stöðu orkumála á þessum tímapunkti.

Nokkur orð um flutningskerfi raforku. Háspennta kerfið okkar er farið að láta á sjá enda elsti hluti byggðalínunnar, er að verða 50 ára. Í þessari umræðu vil ég leggja til að farið verði í sérstakt átaksverkefni og uppbyggingu byggðalínunnar frá Rangárvöllum, (Forseti hringir.) við Akureyri og suður í Hvalfjörð verði flýtt með öllum mögulegum hætti. (Forseti hringir.) Byggðalínuhringurinn er hryggjarstykkið í því að við nýtum okkar grænu endurnýjanlegu orku með sem bestum hætti og eflum samkeppnishæfni landsins.