152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

orkuskipti í þágu loftslagsmála og sjálfbærrar framtíðar.

[15:12]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Frú forseti. Við þurfum að halda okkur á tánum og tryggja að framkvæmdir fylgi fyrirheitum okkar í loftslagsmálum. Við þurfum skýra framtíðarsýn og við þurfum að horfa til næstu ára og áratuga með aðgerðum okkar. Þar mættu stjórnvöld gera betur. Þegar kemur að stærstu ógn okkar tíma eigum við að gera kröfur. Betur má ef duga skal. Í hvert skipti sem við gerum ekki nógu mikið eða nógu snemma verða afleiðingarnar alltaf aðeins verri en þær annars hefðu orðið. Þegar þetta safnast upp stöndum við frammi fyrir alvarlegum vanda. Um er að ræða neyðarástand. Við þurfum að beita öllum tiltækum ráðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og koma í veg fyrir enn meiri hækkun á meðalhitastigi jarðar. Við vitum hve mikið þarf til og við vitum hverjar afleiðingarnar verða ef við gefum eftir. Lágmarkið er að uppfylla allar alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum og við eigum líka að setja okkur metnaðarfyllri markmið, ekki síst þegar stjórnvöld víða um heim standa sig misvel. Við eigum að taka forystu og vera öðrum fyrirmynd.

Og hver er þá áætlun ráðherra, virðulegur forseti? Hvernig hyggst ráðherra beita öllum tiltækum ráðum, laga stjórnsýsluna að breyttum þörfum og efla samstarf við aðra? Við erum nefnilega öll aðilar máls þegar kemur að framtíð jarðar. Hyggjast stjórnvöld leggja árlega fram aðgerðaáætlun með uppfærðum loftslagsmarkmiðum sem byggja á fyrir fram samþykktum stefnum og skuldbindingum? Verða skýr töluleg og tímasett markmið? Samræma þarf allar okkar aðgerðir og virkja samtakamáttinn og eiga virkt samstarf við þingmenn stjórnarandstöðunnar og samfélagið allt og önnur stjórnvöld, ekki bara milli ráðuneyta.

Virðulegur forseti. Enn og aftur: Betur má ef duga skal.