152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[23:06]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru athyglisverðar hugleiðingar hjá hv. þingmanni. Ef við bara höldum okkur aðeins við fjármálahliðina þá getum við tekið sem dæmi að viðbótarverðbólga upp á 1,2% í fyrra, þ.e. að verðbólga hafi reynst 4,4% í stað 3,2%, gerði það að verkum að aukakostnaður ríkissjóðs vegna verðbólgu var 8,6 milljarðar miðað við áætlanir. Við samþykktum fjáraukalög rétt fyrir jól þar sem var veitt heimild fyrir þessum tæpu 9 milljörðum vegna þess að verðbólguspár höfðu verið svo órafjarri því sem reyndist svo raunin. Nú hefur birst frumvarp til fjáraukalaga sem ég veit svo sem ekki hvenær kemur hérna á dagskrá þingsins en þar er ekki gert ráð fyrir neinum fjárútlátum umfram samþykkt fjárlaga fyrir árið 2020, frá því í desember. Hvað hefur gerst síðan þá? Jú, verðbólguspár hafa rokið upp samhliða mjög hárri verðbólgu. Seðlabankinn spáði í febrúar að verðbólga yrði 5,3% á árinu. (Forseti hringir.) Sú spá er líklega vanmat miðað við þróun síðustu vikna. (Forseti hringir.) Það er engu að síður 2% hærri verðbólga en ríkisstjórnin gerir ráð fyrir á þessu ári. Þá erum við komin yfir (Forseti hringir.) 10 milljarða í aukaverðbólgukostnað og allt svigrúmið í fjármálastefnunni er sprungið, (Forseti hringir.) bara miðað við þessar forsendur. Og hvernig ætlum við þá að fjármagna allt sem er talað um í þessum blessuðu drögum að áætlun?

(Forseti (BÁ): Hv. þingmaður fékk 30 sekúndum lengri tíma en forseti hafði gefið honum og það er heldur ekki fordæmisgefandi. Ég bið hv. þingmenn að virða þennan takmarkaða ræðutíma sem við verðum að hafa hér í andsvörum og svörum.)