152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[23:22]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Hann er eiginlega búinn að snúa andsvari mínu upp í andsvar svo maður verður hálfruglaður hér rétt eftir miðnætti. En einfalda svarið er já. Ég er mjög fylgjandi slíkum vinnubrögðum sem birtast í þessu, að Alþingi álykti um breytta sýn til að ná markmiðum og því verði fylgt eftir með aðgerðaáætlun þar sem við setjum verðmiða á hlutina. Ég fór vel yfir það í framsöguræðu minni að ef við breytum ekki þessari nálgun þá lendum við í enn meiri vanda en við erum þegar komin í með að fjármagna þau úrræði sem eru til staðar miðað við breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar. Það er farið yfir fjölmargt hér. Auðvitað erum við að tala um sýn og markmið en það er nauðsynlegt til að við förum af stað í vegferð og náum utan um þann mikilvæga málaflokk sem hér er fjallað um. Þessu vildi ég (Forseti hringir.) bara koma á framfæri og árétta að það er eðlileg að hér séum við ekki að tala um verðmiða á markmiðin sem slík.