152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:09]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Ég gæti trúað því að þessi fundarstjórnarumræða sé m.a. helguð því að hér í þingsal í dag er óvenjulega góð mæting af hálfu ráðherra ríkisstjórnar Íslands. En mig langaði líka til að tala um endurskoðaða áætlun um framlagningu þingmála af hálfu ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í dag. Það vekur fyrir það fyrsta mikla athygli að þar er verið að grisja mjög hraustlega í málaskrá ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Það er eitt. En ég hefði áhuga á að fá fram upplýsingar um málaflokka tveggja ráðherra alveg sérstaklega, og það er frá hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. barnamálaráðherra. Samkvæmt þeirri skrá eins og hún liggur fyrir er verið að fella niður af hálfu heilbrigðisráðherra mál sem lýtur að samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og ég fæ ekki betur séð en að það sé barnamálaráðherra líka að gera samkvæmt framlögðu skjali hér. Þetta er flaggskip Framsóknarflokksins. Er þetta hin nýja framsókn um land allt sem flokkurinn er að boða? Hvað verður um þessi mál?