152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:15]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Breytingar á þingmálaskrá snúast ekki bara um forgangsröðun heldur sýna þær stefnu. Það að við aðra grisjun þessa vetrar á þingmálaskrá hafi frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta verið látið falla sýnir stefnu stjórnarflokkanna í þeim málum. Allt annað er fyrirsláttur. Þetta er mál sem enginn stjórnarflokkurinn setti á þessa þingmálaskrá af heilum hug, held ég að við höfum getað séð núna eftir á. Að sama skapi sýnir það stefnu að halda til streitu og grisja ekki frumvarp til breytinga á útlendingalögum, ógeðslegasta frumvarpi þessa vetrar þar sem dómsmálaráðherra ætlar að vera eins slæmur við flóttafólk og hægt er. Og hvað segir það okkur að það mál lifi af grisjunina núna? Jú, það segir okkur að það er ekki sá ágreiningur innan stjórnarflokkanna (Forseti hringir.) að málið hafi þurft að vera grisjað. Ágreiningur eða ósætti flokkanna við afglæpavæðingarmálið kom því máli út af þingmálaskrá. Flokkarnir vilja (Forseti hringir.) hafa útlendingafrumvarpið á þingmálaskrá. Allir þrír.