152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:19]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þingmálaskráin sem nú liggur fyrir frá ríkisstjórninni ber vott um að þessi stjórn er nánast algjörlega stefnulaus. Þetta er eins konar starfsstjórn. Það er eins og hún viti ekki nákvæmlega hvað hún ætlar að gera á þessu kjörtímabili. Það getur vel verið að frumvarp komi fram næsta haust þar sem ætlunin er að gera eitthvað fyrir heimilin en það er alla vega ekki núna í ár.

Flokkur fólksins hefur lagt fram mörg mál um breytingar á almannatryggingakerfinu. (Gripið fram í: Ekki nógu góð.)— Ekki nógu góð? Það þarf bara að kynna sér frumvörpin, bara að lesa þau. Við erum sennilega með mestu sérfræðinga í almannatryggingakerfinu í þessum þingsal. Þetta eru smávægilegar breytingar, þetta eru ekki stórar breytingar, en það er algerlega fyrir daufum eyrum sem þessi mál eru flutt og þau munu sennilega ekki ná fram að ganga nema með málþófi og baráttu hér í þingsal. Ekki er um að ræða einhverjar stefnubreytingar eða breytingar á grundvallaratriðum heldur breytingar til að bæta kjör aldraðra og öryrkja.

Það eina sem þessi stjórn virðist ætla að gera er að sitja áfram. (Forseti hringir.) Það er kannski kominn tími til að Framsóknarmenn fari að hugsa um það sem þeir segja í fjölmiðlum, að þeir fari að láta verkin tala hér í þingsal.