152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

laun forstjóra ríkisfyrirtækja.

[15:39]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Ég fékk ekki svör við spurningunni, t.d. þeirri hvort ráðherra finnist eðlilegt að ríkisstarfsmenn séu með 43 milljónir í laun á ári og hvort ríkisstjórnarflokkarnir ætli að leggja blessun sína yfir það. Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin ber ábyrgð á þessu. Fólkið í þessum stjórnum situr þar í umboði stjórnmálaflokka og meiri hluti þeirra er í umboði ríkisstjórnarflokkanna, þannig að ríkjandi valdhafar bera ábyrgð á ákvörðunum þessara stjórna. Kjararáð var lagt niður þannig að forstjórarnir heyra undir eitthvað sem enginn skilur. Og hvort þessar tölur og þessi laun stangast á við launaþróun, þarf eitthvað að ræða það? Það er augljóst að þessi laun stangast á við allt. Ég hef ekki séð að það sé einhver gríðarleg samkeppni (Forseti hringir.) um fólk í þessar stöður. Það hlýtur að vera fólk (Forseti hringir.) sem er til í að vinna þessi störf fyrir minna. Það er enginn svona mikils virði. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)