152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

bráðamóttaka geðþjónustu.

[15:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Dagbjarti Gunnari Lúðvíkssyni fyrir góðar spurningar. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á að þetta eru brýn mál, þetta eru mikilvæg mál og þau miða að hópi í mjög viðkvæmri stöðu. Ég vil nú fá tækifæri til að draga fram það sem vel hefur verið gert af því að það blasir við alla daga að við þurfum að gera betur og við þurfum að liðka leiðina að því að þessi viðkvæmi hópur fái þjónustu og þurfi ekki að bíða. Sálfræðingum við heilsugæslu hefur verið fjölgað. Við höfum sett á fót geðheilsuteymi, ekki síst til að ná víðar og breiðar um landið. Síðan kemur hv. þingmaður inn á þessa fjárhæð og vísar í frumvarp Viðreisnar — jákvætt mál, það stóðu allir að því, og var samþykkt hér á þingi. Við erum með 250 millj. kr. til ráðstöfunar og í gangi er gott samtal um að nýta þessa fjármuni. En þegar við erum að kljást við það að forgangsraða fjármunum og ráðstafa þarf að fara vel með og reyna að hitta einmitt á þessa viðkvæmustu hópa. Þetta er, myndi ég segja, mjög gott innlegg í það stóra verkefni sem blasir við okkur.