152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

áhrif stríðs í Úkraínu á matvælamarkað.

[16:02]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að taka hér aðeins upp við hæstv. forsætisráðherra þróun á matvælamarkaði og matvælaverði í heiminum. Við munum eftir stóru áfalli og áhrifum þess á matvælamarkað og matvælaverð fyrir neytendur og fyrir bændur í efnahagshruninu 2008, en síðan eru óveðursský á lofti aftur núna. Við höfum séð matvælaverð í heiminum þróast með hætti sem tengist beint orkuverði. Áhrifin þar, sem er nærtækast að nefna núna, eru takmarkað framboð á áburði og hækkandi áburðarverð sem Alþingi hefur þegar brugðist við, en það er ljóst að ekki verður dreift jafn miklum áburði hér og annars hefði verið næstkomandi vor.

Nú bætast stríðsátök við vanda matvælaframleiðslunnar. Úkranía, sem oft hefur verið kölluð brauðkarfa heimsins eða brauðkarfa Evrópu, er með ákveðnum hætti úr leik að þessu sinni, en þar er uppspretta verulegs magns af því korni sem er á heimsmarkaði og hefur það m.a. áhrif á framboð fóðurs fyrir skepnur hér á landi. Þó svo að við vonum að stríðsátökin hætti sem fyrst þá mun áhrifa þeirra gæta þegar á þessu ári því að um helgina sá ég birta skýrslu þar sem gert er ráð fyrir að einungis um 60–70% af kornframleiðslu Úkraínu verði á þessu ári ef bjartsýnasta myndin er skoðuð. Það er gríðarleg högg og þá er líka spurning hvernig gangi að flytja það á markaði miðað við ástand mála. Skýrslur um mat á ástandinu eru orðnar margar og þær bera það flestar með sér að 2022 verði ekki verulegt vandamál heldur sé það árið 2023 sem verði raunverulega vandamálið. Það sé þá ekki bara spurningin um verðlag heldur líka hvort maturinn fæst.

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvaða áhrif hann telur að stríðið í Úkraínu geti haft á verð og framboð matvæla hér á landi og innlenda matvælaframleiðslu. Hyggst hæstv. ráðherra hyggist beita sér fyrir einhverjum aðgerðum vegna þessarar stöðu og þá hverjum? Er hafin vinna við skipulegt mat á hugsanlegum áhrifum og viðbrögðum við þeim?