152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

áhrif stríðs í Úkraínu á matvælamarkað.

[16:06]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin og ég hvet hana eindregið til dáða. Ég vil beina því til hæstv. forsætisráðherra hvort við getum ekki verið sammála um það að á þessari stundu skipti kannski fyrst og fremst máli að við hvetjum íslenska bændur til dáða. Ég tek eftir því að það eru skilaboð þjóðarleiðtoga ýmissa þjóðríkja að standa með bændum og innlendri framleiðslu á hverjum stað fyrir sig og láta ekki undan síga. Við erum jú grasræktarland og fóðuröflun okkar er fyrst og fremst heyskapur. Þess vegna held ég að það skipti máli að við hugum að því í tíma því að nú fara vorverk að hefjast og við leggjum grunninn að matvælaframleiðslu næsta árs og næstu ára á næstu vikum og mánuðum.

Ég vil því að lokum spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hvatning og stuðningur við bændur á þessu stigi sé ekki mikilvægur. Reyndar má líka spyrja að því, í þessu samhengi, hvort bændur hafi hreinlega afl til þess sem þarf að gera. Það þarf að bæta ýmislegt í umgjörð landbúnaðarins hér og ég vil þar nefna atriði eins og tæpt er á í skýrslunni Ræktum Ísland þar sem eru fjölmörg verkefni til úrbóta. Og hvernig vöktum við aðfangakeðjuna til lengri tíma þannig að ekki fari illa?