152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[16:20]
Horfa

Kolbrún Baldursdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir hans ræðu og ég tek undir hvert eitt og einasta orð. Þetta eru orð í tíma töluð og kannski hafa þau oft verið töluð hér í þessum sal en þar sem ég er ekki alltaf hér hefur það mögulega farið fram hjá mér. En allt þetta er hárrétt. Velferðartækni hefur verið að ryðja sér til rúms og hefur verið að gera ótrúlega hluti fyrir þennan aldurshóp og ekki bara þennan aldurshóp heldur fjölmarga aðra. Við erum jú að sigla inn í stafræna umbreytingu hvert sem litið er og það er sannarlega framtíðin. Þetta er allt rétt varðandi öryggið og það eru svo ótal margir hlutir sem hægt er að nýta velferðartækni í. En umfram allt og kannski mikilvægasti punkturinn er að með slíkri tækni hefur verið dregið mikið úr einangrun eldri borgara. Við fundum sannarlega fyrir því í Covid-ástandinu þegar þessi hópur, viðkvæmi hópur, var nánast innilokaður í allt að tvö ár jafnvel. Þá reyndi nú heldur betur á að geta náð samband í gegnum iPad-inn og heilsað upp á fólkið. Þessi hópur er ótrúlega snjallvæddur þegar á heildina er litið. Það voru margir tilbúnir, veit ég til, að kynnast þessari stafrænu lausn. En að lokum vil ég samt benda á að það er einnig hópur sem hefur ekki treyst sér í þessa lausn og við megum aldrei gleyma því að það er ákveðinn hópur sem á ekki tölvu, er ekki með nettengingu og þá þarf hreinlega að taka upp tólið og hringja eða mæta og heimsækja viðkomandi, setjast niður með honum, spjalla, drekka kaffi og leyfa viðkomandi að njóta samveru.