152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[16:45]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Okkur er tamt að tala um aðgengi að þjónustu, heilbrigðisþjónustu og menntun í samhengi við efnahag. Ég held að við séum oft næmari á þá breytu en þegar við tölum síðan um aðgengi óháð búsetu. Mér finnst mjög mikilvægt að halda þessu tvennu alltaf til haga sem jafn þýðingarmiklum breytum. Hluti af því líka, í svona stærri mynd að Ísland verði samkeppnishæft land sem unga fólkið velur sér að búa á, er að við höfum upp á meira að bjóða en höfuðstaðinn og höfuðborgarsvæðið, að ungt fólk velji sér að búa hringinn í kringum landið. Að öðrum kosti held ég að við séum að glata tækifærum.

En varðandi heilbrigðisþjónustuna held ég að það sé svo augljóst einmitt að með því að nota tæknina þá sé hægt, á tiltölulega auðveldan máta, að jafna leikinn. Eins og ég segi, þetta er auðvitað ekki hægt með alla þjónustu en mjög marga þætti, t.d. varðandi alls konar þjónustu sem sveitarfélögunum er skylt að láta inna af hendi gagnvart börnum sem gengur kannski illa upp í fámennum plássum. Lítið bæjarfélag með nokkur hundruð manns — er starfandi talmeinafræðingur þar t.d., er starfandi sjúkraþjálfari, er starfandi sálfræðingur? Þarna er návígið líka farið að vinna gegn fólki þannig að fjarfundalausnir held ég að geti verið mun betur nýtt breyta í því samhengi. En mér hefur aðeins fundist vanta upp á að ríkisstjórnin geti hugsað sér að taka við lausnum frá sjálfstætt starfandi fyrirtækjum á þessu sviði. Ég vona að það sé að verða breyting á því.