152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[16:52]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það eru sláandi tölur að 20–30% nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga hverfi af starfsvettvangi nánast samstundis. Þegar við lesum 3. tölulið þessarar tillögu þá snýst sá töluliður einmitt um að tryggja mönnun heilbrigðisþjónustunnar til lengri tíma. Við gerum það með því að fá fólk til að haldast í starfi. Auðvitað eru þetta ágætisaðgerðir sem eru lagðar til hérna, að menntun og þjálfun starfsfólks verði í samræmi við kröfur um gæði þjónustunnar. Já, en laun þurfa að fylgja og vera í samræmi við þá menntun og þjálfun. Síðan verði haft samráð við heilbrigðisstéttir um úrvinnslu aðgerða. Fyrirgefðu, frú forseti, en hér er bara farið eins og köttur í kringum heitan graut, í kringum aðalatriðið sem ætti að vera að tryggja heilbrigðisstéttum þau kjör að mönnun heilbrigðisþjónustunnar verði tryggð. Þetta er nefnilega ekkert flókið. Það er búið að sýna öllum þessum kvennastéttum sem vinna í heilbrigðiskerfinu kerfisbundna lítilsvirðingu árum og áratugum saman með því að halda laununum niðri. Það er þess vegna sem 20–30% hjúkrunarfræðinga hverfa af starfsvettvangi stuttu eftir útskrift, einfaldlega vegna þess að stjórnvöld, fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra í sameiningu, halda kjörum þessara stétta niðri. Þó að við höfum samþykkt hér tillögu um að lyfta þessum stéttum, við samþykktum (Forseti hringir.) þá tillögu fyrir fjórum árum, og þetta skjal fjalli berum orðum um að tryggja mönnun í heilbrigðiskerfinu (Forseti hringir.) þá þykir ráðuneytinu það ekki vera vettvangur til að tala um það grundvallaratriði.