152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[16:54]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Hérna haldast kannski í hendur hugmyndafræði hvað varðar heilbrigðisstefnu annars vegar og síðan kvennapólitísk málefni. Ekki aðeins er það svo að þessi þingsályktunartillaga Viðreisnar hafi verið samþykkt árið 2018 heldur höfum við gætt þess mjög vandlega hér inni í þessum þingsal að spyrja ráðherra ríkisstjórnarinnar um hvernig vinnunni miðar. Ég átti einhverju sinni samtal við hæstv. forsætisráðherra um vinnuna og svörin voru þess eðlis að ég gat ekki merkt að það væri mikið í gangi í þeirri vinnu. Tillagan gekk út á það að bæta kjör kvennastétta, vissulega innan heilbrigðiskerfisins en annarra greina einnig, kennara t.d., og að það ætti að ráðast í greiningu á launakjörum þessara fjölmennu kvennastétta og bera þau saman við aðrar stéttir með sambærilega menntun að inntaki og sambærilega ábyrgð. Síðan yrði farið í það á grundvelli þjóðarsáttar og þjóðarsáttin felst þá í því að kjör þessara stétta yrðu leiðrétt án þess að við værum í hefðbundnu tali um höfrungahlaup í kjölfarið. Það yrði samfélagsleg sátt um það að bæta kjör þessara stétta sérstaklega. Með því værum við að fjárfesta í innviðum. Það vill stundum gleymast í öllu talinu um innviði að horfa á það hvað eru sterkir innviðir. Eru sterkir innviðir ekki fólkið sem starfar í greinunum? Það þarf að rýna það. En nú þegar við erum að renna inn í kjarasamningsgerð að nýju þá er staðan því miður óbreytt hvað þetta varðar. En ég held að hér sé komið fram óskaplega mikilvægt verkfæri til að styrkja við stöðu Landspítalans að sjálfsögðu, (Forseti hringir.) en líka heilsugæslunnar um land allt og heilbrigðiskerfisins í heild sinni.