152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[17:31]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góð svör. Já, það þarf einmitt að forgangsraða því hvert við sækjum tekjurnar og þá sérstaklega til þeirra sem meira hafa af þeim. En mig langaði að ræða varðandi tekjur að eitt af þeim stóru vandamálum sem eiginlega allt heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir er tengt mönnun. Það eru þá sérstaklega kannski hjúkrunarfræðingar og aðrir sem fá hreinlega ekki mannsæmandi laun miðað við þá vinnu sem þeir leggja fram. Að hluta til er þetta náttúrlega fjármögnun, það þarf að finna fjármagn til að fá fólk til að vinna þessi störf og ekki flýja í aðra geira. En það að laga laun í einum geira getur haft keðjuverkandi áhrif á restina af samfélaginu. Þess vegna langaði mig að spyrja hv. þingmann hvað væri til ráða þar, annað en að skipa starfshóp og setja á fót nefnd. Hvað er til ráða til þess að bæta kjör heilbrigðisstarfsfólks og gera það að verkum að við séum ekki að sjá þennan stöðuga flótta úr greininni? Nú veit maður að það hefur t.d. verið mikill flótti til útlanda líka þar sem fólk getur unnið án þess að vera í endalausri vaktavinnu til að ná sér í mannsæmandi laun heldur getur unnið venjulega vakt og þannig fengið mannsæmandi laun. (Forseti hringir.) Af hverju getum við ekki gert þetta hér?