152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[17:42]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu vegna þess að þetta snýst ekki bara um þann kostnað sem nú þegar er kominn inn í kerfið og sprengir útgjaldaramma stjórnvalda heldur snýst þetta líka um algjört úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar í því sem við stöndum frammi fyrir núna. Það á ekkert að gera í efnahagsmálum í dag. Og hvað þýðir þetta? Jú, við erum til að mynda að sigla inn í kjarasamningahaust. Kostnaður vegna launa, sem er mjög stór liður af útgjöldum hins opinbera, þriðjungur, getur hæglega rokið upp vegna launahækkana. Við það eitt að ekkert sé gert núna verður fólk að sækja þennan rétt á öðrum forsendum í staðinn fyrir að ríkið gæti ráðist í fyrir fram fjármagnaðar aðgerðir, haft stjórn á fjárútlátum, verið tilbúið að stíga inn og gera eitthvað. Það blasir því við verra ástand. Eina leiðin til að koma svona aðgerðaáætlun í gegn er að fara í niðurskurð einhvers staðar annars staðar í kerfinu. Það bara liggur fyrir. Það á ekki að fara í að bæta tekjuhliðina. Það er meira að segja sagt í fjármálastefnu að leitað verði leiða til að lækka skatta meira. Það er kannski ofboðslega vinsælt en í velferðarsamfélagi þar sem við ætlum að reyna að tryggja fólki jöfn tækifæri, jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu og í menntamálum og þess háttar, þá kostar bara að gera það. Það var ákvörðun sem við tókum hér sem samfélag upp úr 1960 að byggja upp velferðarkerfin okkar og það kostar en við fáum það til baka í aukinni virkni. Við sáum konur af heilu kynslóðunum fara út á vinnumarkað, sem jók aðgang einkageirans að vinnuafli, framleiðni og hvað svo sem það er. Það er verið að grafa undan þessum stoðum núna. Eina leiðin, miðað við núverandi fjármálastefnu stjórnvalda, til að fjármagna svona stóra pakka er að fara í niðurskurð annars staðar í kerfinu og þau hafa ekki treyst sér til að svara fyrir það.