152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[18:54]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var kominn eitthvað áleiðis og skal reyna að svara þessari spurningu líka um veigamikil atriði eins og aðeins er komið inn á hér. Ég held að það sé alltaf mjög mikilvægt með veigamikil atriði, eins og í dag, í þessu beina sambandi á milli forstjóra og ráðherra samkvæmt lögum, að þá þarf auðvitað að tilkynna um veigamikil atriði, breytingar, skipulagsbreytingar, stöðva einhverja starfsemi, loka deildum o.s.frv. Þetta eru allt slíkar ákvarðanir, veigamiklar. Það er líka mikilvægt, eins og er í lögum um þetta í dag, að það sé borið undir fagráð, að stjórn sem stendur að veigamiklum ákvörðunum í samráði við forstjóra beri þær undir fagráð og ef það snýr að beinni þjónustu við sjúklinga sé það líka borið undir notendaráð. Þetta þekkist frá þessum stjórnum.

Aðeins varðandi val á fulltrúum í stjórn. Það eru ýmsar leiðir sem hægt er að fara. Þegar kemur t.d. að starfsmönnunum er hægt að tilnefna frá framkvæmdastjórn, það er hægt að tilnefna frá fagráði. Það er hægt að fara lýðræðislegu leiðina alla inni á spítalanum og svipaða leið getur ráðherra valið að fara til að kalla eftir fulltrúum til að manna alla stjórnina. Ég vona að ég hafi alla vega tæpt á þeim spurningum sem hv. þingmaður kom hér fram með. Síðan vil ég segja um samspil forstjóra og stjórnar að ég vona svo innilega með jafn stóran og umfangsmikil vinnustað, hvort sem við mælum það á fjárlögum eða bara í fjölda starfsmanna, það er engin stofnun jafn stór — ég held að það veiti ekkert af því að sá stuðningur sé til staðar (Forseti hringir.) og það mun byggja á mjög góðri samvinnu til þess að fá fram stuðning til að styrkja faglegan rekstur spítalans.