152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[15:15]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Viktori Stefáni Pálssyni fyrir góða ræðu. Mig langaði að spyrja hv. þingmann út í atvinnulýðræði eða lýðræði yfir höfuð þegar kemur að stjórnun fyrirtækja. Við höfum verið að tala um að fulltrúar starfsmanna fái setu í stjórn og í umræðum í gær heyrði ég að hæstv. ráðherra hafði efasemdir um það hvernig fulltrúar starfsmanna gætu tekið ákvarðanir sem hefðu í rauninni áhrif á þá sjálfa. En að sama skapi tölum við orðið meira um notendur og að hafa rödd notenda í stjórninni. Aftur er fólk hrætt við það og finnur það sem ég myndi kalla afsakanir og segir: Hvernig eigum við að velja einhvern af þessum sjö í notendaráði til að vera fulltrúi? Ég veit um fullt af stjórnum og ráðum og nefndum þar sem svona samtök koma sér saman um hver er fulltrúi og viðkomandi fulltrúi leitar alltaf upplýsinga frá öllum, ekki bara sínum eigin félagasamtökum. Mig langar að heyra frá hv. þingmanni: Hvernig getum við fengið ríkið og aðra sem eru með stjórnir til að virkja meira lýðræði þegar kemur að því?