152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[15:23]
Horfa

Viktor Stefán Pálsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurninguna. Í sjálfu sér held ég að það sé tiltölulega einfalt að yfirfæra þær hugmyndir sem eru settar fram í frumvarpinu um stjórn yfir Landspítalanum yfir á aðrar sjúkrastofnanir á landsbyggðinni. Ef við teljum að þetta frumvarp sé til góða fyrir Landspítalannn sé ég ekki af hverju sambærileg sjónarmið ættu ekki við einnig um sjúkrahúsin á landsbyggðinni. Ég held að þeim sé alveg jafn mikill akkur í því að fá stuðning, reynslu og þekkingu eins og Landspítalanum. Í mínum huga ætti að vera tiltölulega einfalt að lagfæra frumvarpið á þá leið að þetta næði ekki bara til Landspítalans heldur yrðu sett sambærileg ákvæði um aðrar sjúkrastofnanir í landinu. Þetta ætti að vera tiltölulega einfalt, að í staðinn fyrir að einblína á Landspítalann myndi frumvarpið ná til allra heilbrigðisstofnana á landinu.