152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[15:47]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Já, það er mikilvægt að hlusta en við þurfum líka að framkvæma. Ég segi oft söguna af því þegar ég var að vinna hjá Microsoft og skipt var um starfsmannastjóra í alþjóðahlutanum. Viðkomandi starfsmannastjóri byrjaði á því að fara í tveggja mánaða hlustunarferðalag og hlustaði á fólk, út á hvað það vildi setja. Um leið og hún kom til baka úr þessu tveggja mánaða hlustunarferðalagi byrjaði hún að framkvæma og hún fór fyrst í hlutina sem auðveldast var að laga, hluti sem höfðu aldrei fengið athygli, en fór svo í að framkvæma og laga hina hlutina og vinna í því að finna lausnir á þeim.

Heilbrigðiskerfið er eitt flóknasta kerfið sem við búum við. Það er örugglega ekki tekið út með sældinni að verða heilbrigðisráðherra því að það er svo margt sem þarf að laga. En með því að hlusta og forgangsraða og fara í aðgerðir er hægt að laga fullt af hlutum. Oft kosta þessir hlutir jafnvel ekki neitt annað en það að taka ákvarðanir eða breyta verklagi. Ég tek algjörlega undir með hv. þingmanni, það þarf að hlusta, það þarf að framkvæma, og það þarf svo sannarlega að vinna saman þegar kemur að þessum málum.