152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[16:27]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Almennt séð er ábyrgðarhlutverk stjórna tiltölulega skýrt gagnvart svona — eins og stjórn Íslandspósts o.s.frv., í rauninni bera þær jafnvel ábyrgð sem varðar refsingu en ekki er vísað beint í neitt svoleiðis í þessu þannig að þetta virðist vera ábyrgð sem er skilin eftir í lausu lofti um nákvæmlega hvað hún þýðir í tilliti ýmissa annarra laga og annarra stjórna. Maður áttar sig ekki á því hvort þetta sé sambærilegt eða ekki. Talað er um að forstjóri beri eftir sem áður ábyrgð á því að rekstrarútgjöld o.s.frv. séu nýtt á árangursríkan hátt og þar er vísað í lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en það er gagnvart forstjóranum en ekki gagnvart stjórninni, sem er alveg skiljanlegt. En það vantar þetta gagnvart stjórninni því að stjórnin á að taka þó nokkuð viðamikil verkefni að sér varðandi langtímastefnu, varðandi ársáætlun samkvæmt 32. gr. laga um opinber fjármál, leggja sjálfstætt mat á ýmislegt fram og til baka, sem maður þekkir svo sem að svona stjórnarmeðlimir hafa oft ekki bolmagn til eða fá aðstoð til. Til dæmis var unnin skýrsla á vegum forsætisráðherra varðandi það hvernig gekk að koma á stjórn ytri stjórnar fjármálaeftirlitsins o.s.frv., þar sem aðgengi að gögnum var mjög takmarkað. Ég velti fyrir mér þegar allt kemur til alls nákvæmlega hvaða vandamál er verið að reyna að leysa með því að setja stjórn, því það þarf að vera skýrt. Ég er nefnilega búinn að heyra í mjög langan tíma að það sé eitthvert vandamál í gangi, (Forseti hringir.) farið fram yfir fjárheimildir eða eitthvað svoleiðis og hægt sé að leysa það með því að skipa stjórn. (Forseti hringir.) Ég sé ekki að þetta sé endilega lausn við því né heldur af hverju hitt er vandamál því að það er stundum eðlilegt að fjárheimildir standist ekki. (Forseti hringir.) Það þarf hins vegar að útskýra af hverju. Þetta er merkilegt.