152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[16:57]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Baldursdóttur fyrir góða ræðu. Ég hjó eftir því í máli hv. þingmanns að hún talaði um að það væri ákveðin vanvirðing við starfsfólkið, að fulltrúar þess í stjórn væru ekki með sömu réttindi og aðrir stjórnarmeðlimir. Nú hefur fólki verið tíðrætt um það hvað starfsfólk Landspítalans hefur lyft grettistaki undanfarin tvö ár en það hefur líka verið talað um hversu alvarleg staðan er á Landspítalanum hvað varðar starfsánægju, laun og annað. Þar sem ég veit að hv. þingmaður hefur unnið með vinnustöðum og fólki í mörg ár ef ekki áratugi, þá langaði mig að að leita í reynsluheim hennar varðandi það hvað þurfi að hafa í huga þegar þessi stjórn og núverandi forstjóri fara að tækla það ástand sem er á Landspítalanum hvað varðar starfsumhverfi, kulnun í starfi, flótta úr starfi. Ef hv. þingmaður gæti nefnt nokkur atriði sem hafa þarf í huga út frá reynslu hennar.