152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[18:03]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvar. Já, ég tel að hægt sé að gera breytingar á þessu frumvarpi í meðförum þingsins sem verða til bóta og ég tel að við séum að því hér í dag. Við erum að kasta á milli agnúum. Ég vil kalla þetta ákveðna agnúa, en vitaskuld getur lítið sandkorn orðið að stórum haug í fyllingu tímans. Hv. þingmaður talaði líka í fyrra andsvari sínu um mikils háttar breytingar. Nú hef ég aldrei starfað inni á heilbrigðisstofnun, ég hef aldrei starfað inni á spítala og það sem kann að vera fyrir mér alveg gríðarleg rekstrarbreyta eða veruleg breyting á rekstri kann kannski að vera fyrir starfsfólk heilbrigðisstofnunar daglegt brauð. Við heyrum það oft á ári, í upphafi sumars á hverju ári, að verið er að loka deildum vegna sumarleyfa. Ég tel að fyrir mjög margt starfsfólk sé það orðinn eðlilegur partur af starfinu. Þó svo að við viljum ekki loka deildum þá er það veruleiki þannig að fólk komist í sumarfrí.

Skýrleiki og ábyrgð segir hv. þingmaður og ég tek undir það. Það verður að vera. Þetta er þjóðarsjúkrahúsið okkar. Það hefur gegnt og það gegnir sífellt veigameira hlutverki í samfélaginu vegna þess að við erum endalaust að færa fleiri verkefni af öðrum sjúkrahúsum hingað inn á Landspítalann. Ég tel að það hafi verið sorgleg þróun á síðustu árum, að við hefðum miklu fremur átt að styrkja sjúkrahúsin í nágrenni borgarinnar eins og á Akranesi, í Keflavík, á Selfossi, og létta þar með á Landspítalanum.